19.12.2006 | 10:06
Welcome to the hotel California
Stundum borgar sig að vera óskipulagður. Þegar við vorum í Taílandi vorum við hvorki búin að bóka hótel né ákveða hvar við yrðum í Los Angeles. Við ákváðum því að fá ráð hjá einhverjum. Þegar við vorum í bjórskoðunarferðinni í Prag í júlí höfðum við m.a. hitt mann sem heitir Doug og son hans Oliver en þeir eru búsettir í Kaliforníu. Við sendum Doug því tölvupóst og báðum hann um að mæla með einhverjum ákveðnum stað til að vera á því úr svo mörgu væri að velja. Nema hvað, maðurinn bauð okkur að gista hjá sér og neitaði að taka við greiðslu. Við áttum ekki von á þessu því við höfðum lítið talað við þá feðga en ákváðum að þiggja boðið. Doug sagði að þegar við kæmum yrði hann ekki heima og að lykillinn að húsinu væri undir útidyramottunni. Þvílíku trausti höfum við ekki áður kynnst. Við erum í herbergi sonar hans sem á stórt herbergi með Queen size rúmi. Við erum þó ekki ein í herberginu því Oliver á snák sem gæludýr. Snákurinn er víst meinlaus en Anika athugar reglulega hvort snákurinn sé ekki á sínum stað í búrinu. Oliver var sendur í gistiherbergið annars staðar í húsinu. Okkur hefur verið sýnd mjög mikil gestrisni, við fengum lykil eins og kom fram hér að ofan og við megum fá okkur hvað sem er í ísskápnum. Maðurinn á líka einn stærsta ísskáp sem við höfum séð, amerísk stærð. Öddi minntist á að honum þætti fínt að fá kornflögur í morgunmat og daginn eftir voru 5 stórir pakkar af mismunandi tegundum af kornflögum (Kellogs cornflakes, Honey nut Cheerios, o.s.frv.) á borðinu. Við leigðum okkur bílaleigubíl og minntumst á við hann að við vildum versla í L.A. og daginn eftir lét hann okkur fá útprentaðar leiðbeiningar um hvernig maður ætti að keyra í hin ýmsu verslunarmiðstöðvar og verslunargötur. Við leigðum reyndar bíl með GPS-never lost system sem er algjör snilld. Við þurfum ekki lengur risastór kort af borgum til að rata. Anika er mjög fegin því oft kom það í hennar hluta að reyna að sjá út leiðirnar meðan Öddi keyrði þegar við vorum í Evrópu, Ástralíu og Nýja Sjálandi.
Þegar Doug svaradi tölvupósti okkar þá var kveðjan frá Doug, David og Oliver. Við gerðum ráð fyrir að David væri eldri sonur Doug og báðum því að heilsa sonum hans. Í næsta tölvupósti leiðrétti Doug þennan misskilning: David er ekki sonur hans heldur félagi/kærasti eins og hann orðaði það. Þessi misskilningur hefur ekkert frekar verið ræddur á heimilinu.
Doug býr rétt hjá Long Beach í Kaliforníu. Hann vinnur við gerð auglýsinga og lauk nú síðast við gerð auglýsinga fyrir Pedigree hundamat. Hann hefur unnið með mikið af frægu fólki á borð við Jennifer Lopez, Charlize Theron, Shaq og fleiri. Hann hefur sagt okkur nokkrar skemmtilegar sögur af stjörnunum, samskiptunum við þær og sérkröfunum þeirra. David, félagi/kærasti Doug er frá Mexico og er í vinnu hjá Doug (who´s your dady?). Doug sagði okkur að áður en David fór að vinna hjá honum hafi hann verið dansari. Við kunnum ekki við að spyrja nánar útí dansferil David og þaðan af síður var viðeigandi að spyrja hvernig þeir kynntust.
Doug og David eru mjög fyndið par. David er tískulöggan í sambandinu og grætur ekki að versla sér föt. Doug er hins vegar í hlutverki handbremsunar í sambandinu og stemmir af heimilisbókhaldið. Það fer mjög mikið í taugarnar á Doug þegar David gleymir að slökkva ljósin þegar hann yfirgefur húsið. Doug sagði: Ég ætti að leyfa David að greiða rafmagnsreikninginn, þá myndi hann skilja þetta.
Við höfðum ekki tekið eftir því þegar við vorum í Prag að Doug væri hommi en sjáum það sko núna... Fyndið hvernig maður getur útilokað ákveðin einkenni ef maður hefur fyrirfram haldið eitthvað annað og hvernig maður tekur eftir ákveðnum einkennum þegar maður er að leita að þeim!
Við erum búin að fara í verslunarleiðangra og kíkja í Hollywood. Við sáum skiltið fræga "Hollywood" og fórum á stjörnugötuna Hollywood Blvd. Þar sem er hið fræga "walk of fame" þar sem nöfn hinna ýmsu kvikmynda- og tónlistarstjarna eru skráð í götuna. Við sáum nöfn eins og The Beatles, Elvis Presley, Michael Jackson, Charles Chaplin, Harrison Ford, Johnny Depp, Mikki Mús og Lassie. Við þekktum samt ekki meirihlutann af stjörnunum. Reyndar komu sumir fyrir oftar en einu sinni eins og Bob Hope en við fundum hvorki Robert DiNero né Sean Connery. Þarna voru líka fullt af furðufuglum eins og Elvis Presley eftirhermum og þarna var fólk að reyna að selja okkur ferðir þar sem hús fræga fólksins eru skoðuð. Okkur fannst samt vanta svolítið upp á glamúrinn sem maður hefði haldið að fylgdi Hollywood. Þarna var frekar skítugt og mikið um minjagripabúðir og slíkt.
Við erum líka búin að fá okkur svolítið af amerískum mat t.d. erum t.d. búin að fara á Cheesecake Factory þar sem hægt er að fá allskonar góðan mat og margar tegundir af ostaköku t.d. snickers-ostakakaka (mmm) og súkkulaðibitakökudeigs-ostakaka (mmm). Stærðirnar eru reyndar rosalegar og þurftum við að taka afganga með okkur. Í gær fórum við reyndar á japanska veitingahúsið Kobe. Þar er eldað fyrir framan mann og var maturinn mjög góður.
Nú er einungisn tæp vika til jóla, ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Við komum heim að kvöldi dags 21.desember, dimmasta degi ársins.
Sjáumst von bráðar,
Ö og A
P.s. Við erum búin að setja inn nokkrar gamlar myndir frá því áður en við fórum út (ótrúlega langt síðan) og nokkar nýjar myndir frá L.A.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.