Úr 35 gráðum í 5

 

Við erum núna stödd á hótelherbergi í Tokýó í Japan. Mjög gott er að geta notað fartölvuna nýju og tengst netinu frítt á herberginu. Hér er kalt (um 5 gráður) og rigning. Í Taílandi var hitinn oftast um 35 gráður. Hér fer líka að dimma um fjögur leytið en um sex leytið í Taílandi. Við erum því að venjast kuldanum áður en við komum heim í -5 gráðu frost og myrkur.

Við fórum í fjögurra daga köfunarsiglingu um Similan og Surin eyjur í Taílandi eftir hina þægilegu dvöl á Phi Phi eyju. Um 25 manns var um borð í bátnum og var það mjög skemmtilegur hópur. Best kynntumst við bandarísku strákunum Hayden og Dave og svissnesku meyjunum Söndru og Marinu (sjá myndaalbúm). Lífið um borð í bátnum snerist um að borða, sofa og kafa. Einnig voru nokkrar fallegar eyjar heimsóttar á milli kafanna.

Á ströndinni

Við köfuðum 14 sinnum á þeim tíma og sáum m.a. leopard shark (hlébarða hákarl) tvisvar sinnum, manta ray (djöflaskata), clownfish / Finding Nemo (trúðsfiskur), sjávarsnák og margt fleira. Það er ótrúlega mikið líf neðansjávar og við komum sífellt auga á nýjar tegundir sjávardýra sem við höfum ekki áður augum borið.

Fyrri hákarlinn sem við sáum var ca. 2 til 2,5 metrar að lengd. Hann var hinn rólegasti og svamlaði um nokkra metra frá okkur. Hann synti svo rólega frá okkur en Öddi elti hann til að ná betri myndum af honum. Hákarlinn sneri skyndilega við og þá náði Öddi bestu myndinni af honum (sjá mynd).

Leopard shark (hlébarða hákarl)

Seinni hákarlinn (1,5 metri að lengd) sem við sáum var sofandi á hafsbotni árla morguns. Við skildum hákarlinn mætavel þar sem við vorum vakin klukkan 6 um miðja nótt og hefðum gjarnan viljað hvílast lengur. Við fórum mjög nálægt hákarlinum og var Öddi aðeins rúman metra frá honum til að ná góðum myndum. Skyndilega vaknaði hákarlinn í miðri myndatökunni. Hákarlinn var þó hinn rólegasti og synti undir annan fót Ödda og hvarf út í hafið. Sem betur fer var hann ekki mjög morgunfúll.

 

Sofandi Leopard hákarl

Eftir köfunina var okkur ekið til Phuket þar sem við gistum eina nótt. Í Phuket fórum við í verslunarmiðstöð til að leita að ferðatösku. Allt í einu heyrðum við kallað: "ORN" og þá var þar allt í einu stödd Emmy köfunarkennarinn okkar frá Tioman eyju í Malasíu. Lítill heimur. Það var mjög gaman að sjá hana þarna og við gátum sagt henni að við værum búin að kafa 45 sinnum. Nú er regntímabil á Tioman og þá er öll starfsemi niðri.

 

Á morgun flúgum við til Los Angeles þar sem við munum dvelja í 5 daga áður en við fljúgum til eyjarinnar köldu.

 

Hilsen,

Ö og A

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komið þið sæl.... Hörður hérna! þetta eru magnaðar myndir frá (síðustu) köfun. Ég ákvað að breyta aðeins til og "kommenta" bloggið, en þó ég hafi kannski ekki látið heyra mikið í mér, þá hef ég lesið þetta og haft gaman af. En annars eru einungis 6 dagar í ykkur sem er nú ekki mikið meðan við upphafið. Annars er bara allt gott að frétta af okkur, ég er búinn í prófum Sem er mikill léttir. Ég er búinn að sofa  mjög lítið seinustu daga því mér gekk alltaf best að læra á kvöldin. Prófin gengu vel og allt í góðu með það. En annars hlakka ég til að sjá ykkur. Mamma er hjá ömmu og Elísabet (í næsta húsi bauð okkur í mat þannig að ég er orðinn of seinn þangað..)

 

bestu kveðjur,

HÖRÐUR

 Í sambandi við jólagjafir, þá reyni ég að finna eitthvað gott sem fyrst og skrifa hér eða tala við ykkur :D

Hörður (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 18:41

2 Smámynd: Sigurjón

Oh, já...  Gamla, góða Thailand.  Það er stálið!

Sigurjón, 21.12.2006 kl. 02:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband