5.12.2006 | 17:29
Hiti og sviti en ekkert blóð og engin tár
Nú erum við stödd á Phi Phi eyju í suður Taílandi og erum að stikna úr hita. Hitinn hér fer ekki undir 30 gráður.
Eftir hina rólegu en góðu ferð til Laos lá leið okkar til Bangkok í Taílandi. Við vildum ekki eyða miklum tíma þar og ákváðum við að gista bara eina nótt. Við flugum daginn eftir með Air Asia til Krabi sem er í suður Taílandi. Flugfélagið er algjör snilld. Hægt er að bóka flugmiða rafrænnt á heimasíðu þeirra sem kostar frá 1.500 kr. Þjónustan er mjög góð hjá þeim sérstaklega þegar miðað er við lággjaldarflugfélög eins og Ryan air. Það var seinkun um fimm tíma á vélinni til Krabi sem átti að fara um kl 17 síðasta laugardag en Air Asia sendi okkur sms snemma um morguninn og lét okkur vita af seinkuninni. Við gátum þá nýtt tímann og fjárfestum við í góðri HP fartölvu sem við ritum núna á. Við keyptum tölvuna í stórri verslunarmiðstöð sem er á 5 hæðum. Í verslunarmiðstöðinni eru einungis búðir sem selja raftæki eins og tölvur, síma, sjónvörp eða sem því tengist.
Við dvöldumst í Krabi í nokkra daga og fórum meðal annars í dagsferð á litlum báti á fjórar eyjar í kringum bæinn. Þær voru mjög fagrar en náðu þó ekki að toppa Whitsunday eyjar í Ástralíu. Því miður eru víst fáar eyjur ósnortnar eftir í heiminum. Þess má þó geta að James Bond myndin - Man with the golden gun var tekin upp að hluta á einni eyjunni.
Ein af eyjunum sem við sáum
Frá Krabi lág leiðin suður til Phi Phi eyju þar sem við höfum dvalist í góðu yfirlæti í nokkra daga. Hér er mjög rólegt, engir bílar og enginn asi. Við erum búin að kafa, panta okkur alltof mikið af fötum hjá klæðskera, liggja í svitabaði í sólinni, rölta um bæinn og slappa af. Maturinn hér er mjög góður og ódýr. Ótrúlegt en satt þá hittum við fyrstu Íslendingana í ferðinni, þau Gísla og Sóleyju frá Ísafirði. Það var mjög gaman að spjalla við þau um heima og geima og leitt að þau skyldu bara vera á Phi Phi eina nótt. Phi Phi er einn af þeim stöðum sem fór illa út úr fljóðbylgjunni sem skall á eftir jarðskjálftann í Indlandshafi um jólin 2004. Eyðileggingin var mikil en sem betur fer hefur mikil uppbygging átt sér stað, búið er að hreinsa mestan hluta af eyjunni og ferðamannaiðnaðurinn er að komast í samt lag.
Gata í Phi Phi
Phi Phi samanstendur af tveimur eyjum og gistum við á þeirri stærri sem kallast Phi Phi Don. Um daginn fórum við í bátsferð á þá minni sem kallast Phi Phi Leh en hún er óbyggð. Eyjan er mjög falleg en miklir klettar umlykja eynna.
Á Phi Phi Leh
Á eyjunni er einnig mjög falleg strönd sem nefnist Maya. Hvít ströndin er inni í lítilli vík umkringd háum klettum. Myndin The Beach með Leonardo DiCaprio tekin upp að mestu leiti á eyjunni og var ströndin Maya í aðalhlutverki.
Maya ströndin
Í dag fór Anika á matreiðslunámskeið í taílenskri matargerð og gekk bara nokkuð vel. Hún fékk góða kynningu á hinum ýmsu kryddum og olíum sem eru notuð í matargerðina. Einnig fékk hún að velja sér fjóra rétti til að matreiða að hætti infæddra undir handleiðslu reynds kokks. Öddi slappaði af í sólbaði á meðan en kom svo og gæddi sér á matnum hjá Aniku kokki. Matreiðslubók fylgdi með námskeiðinu og er stefnt að því að reyna matreiðslulistina heima. Gallinn er hins vegar sá að sum hráefni er erfitt að fá á Íslandi en það verður að sníða sér stakk eftir vexti.
Anika reynir fyrir sér í eldamennskunni
Á fimmtudaginn förum við í fjögurra daga köfunarbátsferð um Similian og Surin eyjur í Taílandi. Það á víst að vera með bestu köfunarstöðum í heimi (topp 3) og hlökkum við mikið til. Þaðan verður svo haldið til Tokyo áður en við förum til Los Angeles.
Fullt af fleiri myndum eru komnar inn allt frá Hong Kong til Phi Phi.
Kveðja úr sólinni,
Ö og A
P.s. Veriði nú dugleg að skrifa í gestabók og athugasemdir.
Athugasemdir
öss alltaf meira spennandi ævintýri frá ykkur.... og já maður hefur nú bara heyrt góða hluti um asísk flugfélög ólíkt ryan air sem er sannkallað lággjaldaflugfélag.
Kallinn að útskrifast á föstudaginn, leiðinlegt að þið missið af því en ég skal reyna að fylla í spor ödda og auka við stríðnina og skotin hjá mér
Sjáumst annars bara fljótlega og njótið vel afgangsins af ferðinni!
Gummi (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 18:28
Til hamingju með nýju tölvuna:) Ég sit núna heima hjá mér að læra undir aðferðafræðipróf sem ég er að fara í á morgun:) Ég fer bara í eitt próf og svo skila verkefnum 15 des þannig það verður bara rólegt hjá mér um jólin:) Hlakka rosalega til að hitta ykkur á jóladag:) Mig dreymdi þig í nótt Anika, ég vill nú ekki segja það hér hvað mig dreymdi...en það var bara gott sko
Dagrún (IP-tala skráð) 7.12.2006 kl. 12:34
Meira ferðalagið á ykkur! Ákvað að kvitta loks fyrir komu mína, er búin að fylgjast með í dálítinn tíma án þessa kvitta neitt. :) skemmtilegt hjá ykkur! Gangi ykkur vel með lokin á þessari æðislegu ferð!
kveðjur frá Kaliforníu,
Helen (vinkona Helgu)
Helen -http://www.its.caltech.edu/~kristjan/blogger.html (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 08:14
hæ hæ! verður gaman að hitta ykkur þegar þið komið heim eftir þetta ævintýri. Það verða ekkert smá viðbrigði fyrir ykkur að koma í frostið hérna og kuldann sem hefur verið undanfarið! brrrr!! Viljið þið ekki bara koma með hitann og sólina með ykkur..., já og brúnkuna sem ég tel að sé orðin alveg ágæt hjá ykkur :)
bestu kveðjur,
Erla
erla (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 10:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.