Farfuglar

Við erum búin að fara tvisvar til útlanda í sumar. Eftir því sem við ferðumst meira því meira viljum við ferðast.

Í byrjun júlí flugum við til Kaupmannahafnar og gistum eina nótt en ég náði samt að versla slatta á útsölunum á Strikinu. Þaðan fórum við svo yfir Ermasundið til Malmö í Svíþjóð. Við leigðum bíl og keyrðum til Gautaborgar þar sem við vorum í þrjá daga. Við heimsóttum sænsku stelpurnar sem við höfðum kynnst í Ástralíu á ferð okkar þar. Báðar stelpurnar eru læknar og Kristin býr í Gautaborg og Sofia í Falun. Við vorum fyrst hjá Kristinu í íbúðinni hennar í Gautaborg. Það var mjög gott að hafa leiðsögumann sem býr í borginni með okkur og hún fékk líka að gerast túristi í sinni eigin borg, m.a. að fara í siglingu um ána í Gautaborg sem hún hafði aldrei gert áður. Við skoðuðum líka nánasta umhverfi í kringum Gautaborg. Þá var gott að hafa bíl og fórum við að skoða gömul fiskiþorp á eyjum nálægt Gautaborg. Svo keyrðum við norður til Falun sem er gamall koparnámubær. Þá gistum við á hóteli en Sofia var miður sín því systir kærasta hennar var að gista sömu helgi og við vorum þar. Okkur var hins vegar alveg sama, við skyldum þetta mjög vel. Þar kynntumst við fleiri vinum þeirra sem búa í Falun og fengum því nokkra leiðsögumenn til að labba með okkur um Falun og nágrenni. Flest öll húsin í Falun eru gömul og krúttleg og í sérstökum rauðum lit sem er kallaður "Falunröd". Eftir Falun fórum við með Kristinu til Stokkhólms þar sem við gistum í þrjár nætur í húsi foreldra hennar sem voru í fríi annars staðar. Það var mjög gaman í Stokkhólmi sem er falleg borg. Frá Stokkhólmi héldum við aftur til Gautaborgar þaðan sem við flugum til Keflavíkur föstudaginn 13. júlí. Það var mjög vel séð um okkur í Svíðþjóð, við vorum boðin í mat nánast annan hvern dag og frábært að hafa leiðsögumenn með sér í för.

Þessi ferð var ekki nóg fyrir okkur svo við skelltum okkur óvænt til Parísar frá 31. júlí til 7. ágúst. París er mjög falleg, skemmtileg borg og þar er margt að skoða. Við sáum m.a. Eiffelturninnn (biðum í 2 tíma til að komast á toppinn), Louvre, Invalides, Sacre Cæur, Notre Dame, Sigurbogann, Champ Elysees, Versali, fórum í stutta siglingu um Signu o.fl. Við hittum líka Ástu vinkonu okkar sem býr í París. Hún bauð okkur til sín í crepes og rauðvín og löbbuðum við svo um Latínuhverfið á eftir. Þá var líka mjög gott að hafa leiðsögumann með sér sem bendir manni á margt sniðugt sem maður hafði ekki tekið eftir áður. Við vorum mjög ánægð með ferðina til Parísar. Við fundum ekki fyrir því að Frakkar væru neikvæðir í garð okkar eins og margir höfðu varað okkur við. Þó þeir væru ekki mjög sleipir í ensku voru þeir almennilegir og reyndu sitt besta. Við vorum reyndar í París á versta tíma, þegar ferðamenn hertaka borgina og flestir Frakkar flýja til annarra staða í frí. Það væri eflaust betra að fara til Parísar í maí eða september. Veðrið var mjög gott allan tímann en þó rigndi þegar við vorum í rútunni á leið á flugvöllinn til að komast heim. Flugvöllurinn í París er þó ekki sá skemmtilegasti sem við höfum komið á og spilaði inn í að ég ætlaði að fá tax refund á flugvellinum en var mjög lengi að finna rétta staðinn. Þegar uppi var staðið var ekki þess virði að fá 22 Evrur til baka fyrir vesenið. Ég er viss um að þeir hafa þetta svona óaðgengilegt svo að enginn nenni að standa í þessu. Ég hef hins vegar gert þetta áður í Kaupmannahöfn og Gautaborg og þá var þetta ekkert mál.


Hej då og au revoir

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband